Lög Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands

LÖG

1.gr. Almenn ákvæði 

1.1. gr. Nafn félagsins er Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurlands, skammstafað NFSu. Heimili þess og varnarþing er á Selfossi. 

1.2. gr. Markmið félagsins eru:
a) að sjá um félagslíf nemenda,
b) að gæta hagsmuna nemenda,
c) að veita félögum ýmis fríðindi. 

1.3. gr. Félagsmenn teljast allir þeir nemendur skólans sem greiða félagsgjöld hverrar annar.
a) Félagsmenn skulu mæta í myndatöku í upphafi hverrar annar og fá þá afhent skírteini með nafni, kennitölu og mynd af viðkomandi. Félagsmenn eru sjálfir ábyrgir fyrir því að mæta í myndatöku og skulu gera það fyrir dagsetningu ákveðna af nemendaráði. Félagsmenn bera sjálfir ábyrgð á að sækja skírteini sín.
b) Skírteinin veita handhöfum þeirra ýmis fríðindi en hafi félagsmaður ekki skírteini undir höndum nýtur hann engra réttinda innan félagsins. 
c) Skráðir meðlimir NFSu fá ekki greitt fyrir störf sem tengjast eða eru í þágu NFSu. 

1.4. gr. Allir sem sitja í stjórn nemendafélags skulu fá einn boðsmiða á dansleik sem nemendafélagið heldur yfir skólaárið. Formaður skal halda utan um það. Sitji nemandi aðeins hálft skólaárið er það í höndum formanns ásamt nemendaráði að ákveða hvort viðkomandi fái boðsmiða eða ekki. 

1.5. gr. Stjórn nemendafélags skal sjá til þess að þrifnaðar og hreinlætis sé gætt þar sem stjórnin hefur aðsetur og aðstöðu. 

2.gr. Stjórn nemendafélagsins 

2.1. gr. Stjórn nemendafélagsins skipa: 
Formaður 
Varaformaður 
Gjaldkeri 

Formaður skemmtinefndar 
Formaður íþróttanefndar 
Markaðs- og kynningarfulltrúi 
Formaður rit- og málfundarnefndar 
Samskiptafulltrúi 

Fulltrúi nýnema og formaður skreytingarnefndar 

Stjórn NFSu annast daglegan rekstur félagsins og kemur fram fyrir hönd þess. 

Stjórn nemendafélagsins hefur umsjón með allri starfsemi félagsins. Stjórnin getur kosið í nefndir sér til aðstoðar sem starfa að sérstökum málefnum innan þess. Einnig hefur hún hefur samstarf við nefndir og klúbba, sem starfa á vegum NFSu. 

Skólanefndarfulltrúi (formaður skólanefndar) og viðburðastjórar hafa áheyrnarrétt á fundum stjórnar nemendafélagsins. 

2.2. gr. Formaður NFSu hefur umsjón með störfum stjórnar nemendafélagsins, hann boðar fundi þess og kemur fram fyrir hönd þess. Hann hefur rétt til að sitja fundi allra nefnda og klúbba NFSu. Formaður NFSu er meðlimur í skólaráði og situr skólanefndarfundi fyrir hönd nemenda. 

2.3. gr. Gjaldkeri NFSu hefur umsjón með fjármálum félagsins og ber að láta gjöld og tekjur fara um umsýslureikning þess. Hann hefur aðgang að bókhaldi allra nefnda og klúbba NFSu. Hann leggur fram heildarreikninga félagsins á aðalfundi félagsins. Gjaldkeri NFSu situr einnig í skólaráði ásamt formanni og varaformanni fyrir hönd nemenda. 

2.4. gr. Varaformaður NFSu heldur yfirlit yfir starfsemi og félagslíf NFSu þ.m.t. samantekt á ársskýrslu fyrir aðalfund. Varaformaður NFSu er staðgengill formanns. Varaformaður NFSu situr ásamt formanni og gjaldkera í skólaráði fyrir hönd nemenda. 

3.gr. Nefndir og klúbbar 

3.1. gr. Skipun stjórnar NFSu. Innan Stjórnar NFSu starfa eftirtaldar nefndir: Skemmtinefnd, íþróttanefnd og rit- og málfundarnefnd, skreytingarnefnd ásamt fleirum skipuðum af stjórn nemendafélagsins. Formenn þessara nefnda sitja í stjórn nemendafélagsins. 
3.2. gr. Stjórn nemendafélagsins hefur umsjón með allri starfsemi félagsins. Hún getur kosið í nefndir sér til aðstoðar sem starfa að sérstökum málefnum innan þess. Nemendafélagið hefur samstarf við nefndir og klúbba, sem starfa á vegum NFSu. Stjórn nemendafélagsins skipa formaður, varaformaður, gjaldkeri, formaður rit- og málfundarnefndar, samskiptafulltrúi, markaðs- og kynningarfulltrúi, formaður skemmtinefndar, formaður íþróttanefndar auk fulltrúa nýnema. 

3.3. gr. Hlutverk nefnda 

Sjá Handbók nemendafélagsins. 
3.4. gr. Fjármál nefnda og félaga. Ábyrgðarmenn nefnda og félaga bera ábyrgð á fjármálum þeirra gagnvart gjaldkera NFSu. 

3.5. gr. Víkja úr nefndum. Forsvarsmenn hverrar nefndar hafa rétt til að víkja einstaklingum tímabundið úr nefndum. Ef víkja á einhverjum alfarið úr nefnd skal það borið undir stjórn nemendafélagsins á fundi og skal sá einstaklingur fá að tala sínu máli. 

3.6. gr. Félagsgjöld Stjórn nemendafélagsins og allir nefndarmenn skulu borga félagsgjöld í NFSu. 

4. gr. Klúbbar 

4.1. gr. Meðlimir NFSu geta stofnað klúbba innan NFSu. 

4.2. gr. Við stofnun klúbba innan NFSu skal kjósa 3ja manna stjórn. Einnig skal velja klúbbnum nafn. Þegar þessum upplýsingum hefur verið skilað til stjórnar nemendafélagsins og telst það formlega stofnað ef stjórn NFSu samþykkir fyrirliggjandi gögn. 

4.3. gr. Klúbbar skulu starfa sem mest sjálfstætt. 

4.4. gr Klúbbar geta sótt um fjárstuðning fyrir starfsemi sína til nemendafélagsins hafi þau tilkynnt stofnun hans. Þeir skulu kappkosta við að láta starfsemi klúbbsins standa undir sér fjárhagslega og geri fjárhagsáætlun ef þörf krefur. Gjaldkeri hefur rétt til að krefja klúbbinn um endurgreiðslu ef honum finnst ekki við hæfi að tengja notkun styrksins við starf NFSu. 

4.5. gr. Gjaldkeri NFSu aðstoðar klúbbinn og sér um bókhald. 
4.6. gr. Formaður klúbbsins er tengiliður við stjórn nemendafélagsins. 

5. gr. Aðalfundur NFSu 

5.1. gr. Aðalfundur skal haldinn undir lok vorannar. 
5.2. gr. Hann skal auglýstur með viku fyrirvara og er löglegur sé löglega til hans boðað. 
5.3. gr. Dagskrá aðalfundar:
a) Fundarsetning. Formaður NFSu skal skipaður fundarstjóri og ritari NFSu skal skipaður fundarritari.
b) Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram.
c) Ársskýrsla nemendaráðs lögð fram.
d) Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.
e) Lagabreytingar.
f) Önnur mál.
g) Orðið gefið laust .
h) Fundi slitið. 
5.4. gr. Ef færri en 40% nemenda sitja fundinn þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til samþykktar, annars telst samþykki ógilt. 

6. gr. Nemendafundur 

6.1. gr. Nemendafundur er opinn fundur nemenda FSu. og skal haldinn:
a) ef nemendaráð telur þörf á að leggja eitthvað mál fyrir nemendur,
b) ef minnst 10% nemenda krefjast þess. 
6.2. gr. Ef færri en 40% nemenda sitja fundinn þarf minnst 2/3 hluta greiddra atkvæði til samþykktar. 
6.3. gr. Nemendafundur skal auglýstur með minnst dags fyrirvara. 

7. gr. Kosningalög NFSu 

7.1. gr. Kosningar til allra embætta NFSu skulu fara fram að vori. Kosningar skulu ekki haldnar fyrr en 14 dögum fyrir aðalfund og ekki síðar en degi fyrir aðalfund. 
7.2. gr. Kosningar skulu vera leynilegar. Aðeins félagsmenn NFSu hafa kosningarétt. Félagsmaður í nemendafélaginu fyrirgerir rétti sínum til framboðs hafi hann brotið af sér í trúnaðarstörfum á vegum nemendafélagsins eða brotið reglur skólans. 
7.3. gr. Kjörstjórn. Þriggja manna kjörstjórn skal skipuð af Stjórn NFSu þannig að í henni sitji þrír nemendur sem engra hagsmuna hafa að gæta. Kjörstjórn skal sjá um framkvæmd kosninganna. Hún skal skipuð þremur nemendum sem ekki eru í framboði auk fulltrúa kennara. 
Verkefni kjörstjórnar eru:
a) Að auglýsa eftir framboðum í embætti NFSu.
b) Að sjá um framboðsfund þar sem frambjóðendum gefst kostur á að kynna sig og áform sín.
c) Framkvæmd kjörfundar.
d) Talningu atkvæða. 

7.4. gr. Kjörstjórn er skipuð mánuði fyrir kosningar. 
7.5. gr. Þeir sem taka sér sæti í kjörstjórn, til að halda hlutleysi, fyrirgera sér kosningarétti og mega ekki undir neinum kringumstæðum lýsa yfir stuðningi við frambjóðanda. 
7.6. gr. Framboðsfundur skal haldinn minnst tveimur dögum fyrir kjörfund. 
7.7. gr. Úrslit kosninga skulu kunngjörð ekki seinna en tveimur dögum eftir kjörfund. 
7.8. gr. Nemi sem dvelur tímabundið erlendis við nám getur boðið sig fram í embætti innan NFSu. Forsenda er þó sú að nemandi borgi fullt gjald í nemendafélagið og fá staðfestingu skólayfirvalda á því að hann/hún sé nemandi við FSu. 
7.9. gr. Aðeins er hægt að bjóða sig fram í eitt embætti hverju sinni. 

7.10. gr. Embætti sem kosið er um. Í kosningum skal kosið til eftirfarandi embætta: 
a. a. Formaður nemendafélagsins 
b. Gjaldkeri nemendafélagsins 
c. Varaformaður nemendafélagsins 
d. Formaður skemmtinefndar 
e. Formaður íþróttanefndar 
f. Markaðs- og kynningarfulltrúi 
g. Formaður rit- og málfundarnefndar 
h. Samskiptafulltrúi 
a. 
7.11. gr. Frambjóðendur geta verið viðstaddir talningu atkvæða í það embætti sem þeir bjóða sig fram í óski þeir þess. 
7.12. gr. Fái tveir eða fleiri frambjóðendur í sama embætti jafn mörg atkvæði í kosningum skal kosið aftur í það embætti. 

7.13. gr. Á haustönn skal kosið til þeirra embætta sem ekki náðist að fylla upp í og einnig skal fulltrúi nýnema í nemendaráð vera kosinn þá af nýnemum eingöngu. 

7.14. gr. Hverjum nemanda er aðeins heimilt að bjóða sig fram í eitt embætti. 

7.15. gr. Framkvæmd kosninga skal vera í höndum kjörstjórnar í samvinnu við stjórn nemendafélagsins og viðburðarstjóra. Framboð skal tilkynna til viðburðarstjóra. Framboð skulu vera leynileg og ekki gefin upp fyrr en umsóknarfrestur rennur út. 

8. gr. Endurskoðendur 

8.1. gr. Endurskoðendur NFSu skulu vera tveir, annar skipaður af skólastjórn en hinn af stjórn nemendafélagsins. 

9. gr. Lagabreytingar 

9.1. gr. Lagabreytingatillögur þurfa að berast stjórn nemendafélagsins minnst viku fyrir aðalfund, undirritaðar af flutningsmönnum. 
9.2. gr. Stjórn nemendafélagsins ber að kynna meðlimum NFSu framkomnar lagabreytingatillögur og gefa flutningsmönnum tækifæri til að útskýra ástæður tillaganna. 
9.3. gr. 2/3 hluta atkvæða þarf til að samþykkja tillögurnar. 

10. gr. Um gildi laganna 

10.1. gr. Lög þessi taka gildi um leið og aðalfundi lýkur. 

10.2. gr. Lögum þessum var breytt á aðalfundi með samþykkt 2/3 meirihluta viðstaddra félagsmanna á aðalfundi 18. apríl 2018. 

EFNISYFIRLIT 

1.gr. Almenn ákvæði 3 

2.gr. Stjórn nemendafélagsins 4 

3.gr. Nefndir og klúbbar 5 

3.1. gr. Skipun stjórnar NFSu 5 

3.2. gr. Stjórn nemendafélagsins 5 

3.3. gr. Hlutverk nefnda 5 

3.4. gr. Fjármál nefnda og félaga. 5 

3.5. gr. Víkja úr nefndum. 5 

3.6. gr. Félagsgjöld 5 

4. gr. Klúbbar 5 

5. gr. Aðalfundur NFSu 6 

6. gr. Nemendafundur 6 

7. gr. Kosningalög NFSu 6 

8. gr. Endurskoðendur 8 

9. gr. Lagabreytingar 8 

10. gr. Um gildi laganna 8

Shopping Cart